Frétt

07. október 2016

SÍA III, framtakssjóður í rekstri Stefnis, fjárfestir í félagi sem verður eigandi fasteignar og rekstrar Marriott EDITION hótelsins við Austurhöfn

Fjármögnun á byggingu Marriott EDITION hótels sem rýsa mun við Austurhöfn 2 við hlið Hörpu er lokið og ráðgert er að hótelið opni í lok árs 2018.

Bandaríska fasteignaþróunarfélagið Carpenter & Company festi kaup á lóðinni á síðasta ári og samdi í kjölfarið við Marriott International um rekstur á hótelinu, sem verður starfrækt undir vörumerkinu EDITION.

Carpenter & Company hefur á að skipa reynslumiklu teymi sem tekið hefur þátt í þróun og byggingu fjölda sambærilegra hótela og er nú m.a. að byggja 60 hæða hótel og íbúðaturn í miðborg Boston. Marriott International rekur yfir 5.700 hótel í 110 löndum og mun í krafti reynslu sinnar setja mark sitt á íslenskan hótelmarkað. Yfir 85 milljónir ferðalanga eru aðilar að fríðindakerfi Marriott og því verður til nýr snertiflötur íslensks ferðamanniðnaðar við erlenda ferðamenn.

SÍA III, framtakssjóður í rekstri Stefnis, verður leiðandi fjárfestir í félagi sem verður eigandi fasteignar og rekstrar hótelsins. Aðrir fjárfestar eru, auk Carpenter & Company, erlendir og innlendir einkafjárfestar og stofnanafjárfestar.

Arion banki veitti Carpenter & Company ráðgjöf og hafði umsjón með fjármögnun verkefnisins.

Richard Friedman, forstjóri Carpenter & Company Inc.:

„Ég er afar spenntur yfir því að þessum áfanga er náð. Undirbúningur byggingar fyrsta alþjóðlega fimm stjörnu hótelsins á Íslandi er nú í fullum gangi. Við munum sjá til þess, ásamt íslenskum samstarfsaðilum okkar arkitektum og verktökum, að hótelið taki mið af einstakri staðsetningu þess við hlið Hörpu.“

Arnar Ragnarsson, Sjóðstjóri SÍA III:

„Ferðaþjónusta á Íslandi er í miklum vexti og er það mat okkar að fimm stjörnu hótel, byggt og hannað af teymi með mikla reynslu af sambærilegum verkefnum og rekið af Marriott, stærsta hótelrekstraraðila í heimi, gefi þessu verkefni mikla sérstöðu á hótelmarkaði.“

Kevin Montano, framkvæmdastjóri hjá EDITION hótelum Marriott International:

„Ísland er einstakur áfangastaður og í anda þess sem viðskiptavinir EDITION hótelanna sækjast eftir. Við munum setja nýja staðla fyrir gæði og þjónustu á Íslandi. EDITION vörumerkið stendur fyrir fjölskyldu hótela sem tengjast í gegnum fimm stjörnu þjónustu og hönnun en er þó hvert um sig einstakt með tilliti til umhverfis og menningar á hverjum stað.“

Um Carpenter & Company

Carpenter & Company var stofnað árið 1898 og tekur þátt í þróun fasteigna, eignarhaldi, stjórnun og miðlun þeirra. Carpenter hefur tekið þátt í byggingu hótela, verslunarmiðstöðva, skrifstofuhúsnæðis og íbúðabygginga.

Um SÍA III

SÍA III er framtakssjóður í rekstri Stefnis hf. Hluthafar SÍA III samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum. Framtakssjóðir á vegum Stefnis hafa verið leiðandi í framtaksfjárfestingum á Íslandi og hafa, ásamt meðfjárfestum, fjárfest fyrir yfir 40 milljarða í óskráðum félögum frá árinu 2011.


Til baka

Fleiri fréttir

25.apríl 2018

SRL slhf., sjóður í rekstri Stefnis kaupir Landey ehf.

Þann 24. apríl sl. var gengið frá kaupum og afhendingu á Landey ehf. frá Eignarhaldsfélaginu Landey til sjóðs í rekstri Stefnis. Sjóðurinn heitir SRL slhf. og...

28.mars 2018

Áhrif og ákvarðanir stjórna. Ráðstefna um góða stjórnarhætti í Háskóla Íslands.

​Stefnir hefur um árabil stutt við málefni góðra stjórnarhátta og var fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að hljóta nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum...

02.mars 2018

Ársreikningur Stefnis 2017 - Sterkt rekstrarár að baki

Hagnaður Stefnis á árinu 2017 nam 1.680 milljónum króna samkvæmt ársreikningi félagsins. Eigið fé félagsins í lok ársins nam rúmum 3,2 milljörðum króna.